Sport

Alonso leiddi frá fyrstu mínútu

Fernando Alonso, ökumaður hjá Renault-liðinu í Formúlu 1 kappakstrinum, fór með sigur af hólmi í annarri keppni tímabilsins sem fram fór í Malasíu í gærmorgun. Jarno Trulli hjá Toyota var í öðru sæti og Nick Heidfeld hjá Williams hampaði þriðja sætinu. Renault hefur því unnið tvö fyrstu mótin á keppnistímabilinu en Giancarlo Fisichella vann fyrsta mót ársins. Byrjunin lofar því góðu fyrir Renault og var Alonso hæstánægður eftir kappaksturinn. "Það er frábær tilfinning að ná sigri hér. Þetta var mjög erfið keppni, líkamlega séð, og brautin mjög krefjandi. Ég tel okkur eiga góða möguleika á að berjast um titilinn," sagði Alonso sem leiddi keppnina frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Michael Schumacher, ökumaður Ferrari, hafnaði í 7. sæti að þessu sinni en hann féll úr keppni á mótinu í Ástralíu fyrir hálfum mánuði. "Sjöunda sætið er eitthvað sem er ekki fagnaðarvirði en ég tel mig þó hafa gert eins vel í stöðunni og mögulegt var," sagði Schumacher sem vann sig upp úr þrettánda sæti. "Í næstu keppni munum við notast við nýja bílinn og það er alltaf sérstök upplifun. Ég hlakka til að spreyta mig á nýja bílnum," bætti Schumacher við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×