Erlent

Palestínumenn taka við Tulkarm

Palestínumenn taka við öryggisgæslu af Ísraelum í borginni Tulkarm á Vesturbakkanum á morgun. Þetta sagði varnarmálaráðherra Ísraels, Shaul Mofaz, í dag. Palestínstínskar öryggsisveitir tóku við gæslu í borginni Jeríkó á miðvikudaginn var en alls munu þær taka við fimm borgum á Vesturbakkanum af ísraelskum hersveitum samkvæmt samkomulagi sem þjóðirnar gerðu í Egyptalandi í síðasta mánuði. Eftir er að afhenda borgirnar Ramallah, Betlehem og Qalqilya en nokkur seinkun hefur orðið á afhendingu borganna vegna sjálfsmorðsárásarinnar í Tel Aviv. Friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs virðast nokkuð góðar og vonir glæddust enn frekar þegar palestínskar hreyfingar samþykktu í vikunni að framlengja vopnahléssamning við Ísraela. Engu að síður halda skærur áfram á svæðunum og kom til bardaga í tvígang í dag. Þrír ísraelskir hermenn og einn lögreglumaður særðust í árás paelstínskra byssumanna í al-Omri flóttamannabúðunum nærri Ramallah og þá var Palestínumaður skotinn nærri ísraelsku landamærunum í Betlehem.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×