Sport

Gæti hafa spilað síðasta leikinn

Knattspyrnumaðurinn Rúnar Kristinsson, landsleikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi, ákvað í síðustu viku að gefa ekki kost á sér í komandi landsleiki gegn Króatíu og Ítalíu þrátt fyrir að vera leikfær með liði sínu Lokeren í Belgíu.  Ákvörðun Rúnars hefur vakið upp nokkur viðbrögð á meðal íslenskra fótboltaunnenda sem eiga það sameiginlegt að vilja veg landsliðsins ávallt sem mestan og gera þannig kröfu um að bestu og reyndustu leikmenn liðsins gefi kost á sér. Fréttablaðið átti spjall við Rúnar þar sem hann gerir grein fyrir ákvörðun sinni og segir frá því hann hafi hugsanlega spilað sinn síðasta landsleik. "Ég hef enn þann dag í dag mjög gaman að því að spila með landsliðinu," segir Rúnar og hrekur þannig allar fullyrðingar þess efnis að hann hafi misst áhugann fyrir því að leika fyrir Íslands hönd. "Eftir leikinn gegn Þjóðverjum ytra í lokaleik undankeppni EM árið 2003 hafði ég í hyggju að hætta með landsliðinu. Ég sagði Ásgeiri að ég þyrfti minn umhugsunarfrest og mitt sumarfrí og það var til dæmis ástæðan fyrir því að ég tók ekki þátt í Manchester-mótinu síðasta sumar. Ég þurfti einfaldlega að hugsa minn gang," segir Rúnar. Eftir að hafa hugsað málið í bak og fyrir tilkynnti Rúnar landsliðsþjálfurunum að hann hyggðist gefa kost á sér í landsliðið áfram svo framarlega sem þeir teldu sig geta nýtt krafta hans. "Ég mætti í leikinn gegn Ítalíu á Laugardalsvelli en síðan varð ég fyrir því óláni að lenda ég í þessum meiðslum sem hafa valdið því að ég hef misst af öllum leikjunum í undankeppninni til þessa." Of mikið í húfi Umrædd meiðsli útskýrir Rúnar sem "svolítið flókin" og segir hann það hafa tekið langan tíma að komast í almennilegt leikform. "Meiðslin eru efst í framanverðu lærinu og ég er búinn að vera tæpur í allan vetur. Ég var alveg frá í þrjá mánuði í lok síðasta árs og rétt náði að spila tvo leiki fyrir jól með Lokeren. Ég var ekki kominn í toppform fyrr en í lok janúar og síðan þá er ég búinn að spila flesta leikina. Ég spilaði 90 mínútur í síðustu viku og þurfti að frá sprautu daginn eftir til að minnka eymsli í fætinum. Staðan er bara þannig að ég verð að fara varlega," segir Rúnar og bætir við að þannig sé hann tilneyddur til að hugsa um sjálfan sig. "Ég verð að hugsa um heilsuna til að ég sé fær til að stunda mína vinnu með mínu félagsliði. Ég held að maður eigi það kannski inni þar sem maður er búinn að mæta í nánast hvern einasta leik frá því að ég hóf að leika með landsliðinu," segir Rúnar sem spilaði sinn fyrsta landsleik þegar hann kom inn á í 2-0 tapi gegn Sovétríkjunum suður við Svartahaf, þá aðeins 18 ára gamall og leikmaður KR. "Ég verð að horfa til aðstæðna hverju sinni. Samningur minn við Lokeren rennur út í vor og ég hef hug á því að vera eitt ár til viðbótar hjá félaginu. Það er því mikilvægt að ég sé heill og klár í leikina fyrir félagið sem borgar mér mín laun. Mig dauðlangar til að spila þessa landsleiki en stundum verður maður að láta skynsemina ráða. Ef ég færi í þessa leiki, gegn læknisráði Lokeren, og það færi eitthvað úrskeiðis þá bitnar það náttúrulega bara á mér. Ég gæti orðið frá það sem eftir er tímabilsins og þá er minn ferill búinn hér í Belgíu," segir Rúnar. Hann vill þó ekki meina að það hafi verið þrýstingur frá þjálfurum og stjórnarmönnum Lokeren. "Það var engin pressa þannig séð en þeir voru ekki hrifnir að því að ég sé að fara í landsleiki eins og ástandið á mér er núna," segir hann. Fer að verða orðið gott Rúnar verður 36 ára í september á þessu ári og viðurkennir hann að aldurinn sé farinn að segja til sín. Aðspurður um hvort hann hefði gefið sér kost í þessa landsleiki fyrir 10 árum segir Rúnar að því sé erfitt að svara. "Það hefði allavega verið mun auðveldara fyrir mig að standast álagið fyrir 10 árum síðan. Ég er lengur að ná mér á milli leikja núna og það tekur lengri tíma að endurheimta þá krafta sem þarf í hvern leik. Og þegar það kemur leikjahrina þar sem spilað er tvisvar í viku í nokkurn tíma, eins og raunin er nú, þá eru það mikil átök fyrir líkamann. Það var ekki þannig fyrir 10 árum." Hvernig sérðu þá framtíð þína með landsliðinu? "Mig dauðlangar að hjálpa liðinu til að ná árangri. Hann hefur látið á sér standa hingað til og það er ekki til að minnka pressuna á þjálfara og leikmenn. Með því að segja það er ég er ekki að setja mig á einhvern stall því liðið gæti vel verið stigalaust ef ég hefði spilað alla þessa leiki. En í augnablikinu hugsa ég ekki lengra en fram á vor því að þá eru ákveðin tímamót á mínum ferli og það gæti farið svo að ég hætti í fótbolta. Þangað til mun ég gefa kost á mér í landsliðið ef heilsan leyfir." Muntu leggja skóna á hilluna ef þú færð ekki áframhaldandi samning hjá Lokeren? "Ég veit það ekki. Ég reyni að hugsa ekki svo langt. Maður reynir kannski að finna sér annað félag, hvort sem það verður heima á Ísland eða annarsstaðar en ég vonast til að geta verið eitt ár til viðbótar hjá Lokeren." En það gæti verið að þú hafir leikið þinn síðasta landsleik? "Já, það gæti vel verið. Ég væri alveg til í að spila nokkra leiki í viðbót en þetta veltur allt á því hvort Ásgeir og Logi geta notað mig og hvernig heilsa mín verður. Ég mun taka ákvörðun þegar þar að kemur en ég geri mér grein fyrir því að það fer að koma að þeim tíma þar sem þakkar er fyrir sig og nýjum mönnum er hleypt að," segir Rúnar Kristinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×