Erlent

Þúsundir fíla drepnar árlega

Talið er að 6.000-12.000 afrískir fílar falli á hverju ári fyrir byssum veiðþjófa. Fílabein gengur kaupum og sölum á svarta markaðnum í Súdan og eru Kínverjar stórtækir í fílabeinskaupum. Flestir fílanna eru felldir í Súdan, Kongó og Mið-Afríkulýðveldinu en einnig eru veiðiþjófarnir aðgangsharðir í Kenía og Tsjad. Esmond Martin, breskur sérfræðingur sem rannsakað hefur fílabeinsmarkaðinn, segir að fíladráp fari vaxandi enda sé svarti markaðurinn í höfuðborg Súdan, Kartúm, yfirfullur af vörum úr fílabeini. Hann segir sérstakt áhyggjuefni að súdanski herinn stundi stórfelldar veiðar í suðurhluta landsins þrátt fyrir strangt bann þar að lútandi. Verðið á fílabeini hefur tvöfaldast á átta árum og því er eftir meiru að slægjast fyrir veiðiþjófa. Nú kostar kílóið ríflega hundrað dollara, eða um sex þúsund krónur. Martin telur að Kínverjar kaupi um 75 prósent af fílabeininu en þúsundir Kínverja starfa í Súdan við fílabeinshandverk. Efnahagsuppsveiflan í Kína hefur því sína ókosti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×