Erlent

Harðvítugar deilur við Taívanssund

Enn og aftur er allt hlaupið í bál og brand á milli stjórnvalda í Kína og Taívan eftir að kínverska þingið samþykkti í morgun lög sem heimila innrás í Taívan, lýsi landið yfir sjálfstæði. Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum allra, tæplega þrjú þúsund, þingmanna á kínverska þinginu og var mikið klappað þegar ljóst var að það yrði að lögum. Þessi nýju lög kveða á um að lýsi Taívanar formlega yfir sjálfstæði frá Kína megi Kínverjar beita þá hernaðaraðgerðum. Stefna kínverskra stjórnvalda er sú að Taívan sé enn hluti af Kína og þau ætla ekki að sitja þegjandi vegna frekari sjálfstæðistilburða Taívanstjórnar sem hefur hægt og bítandi verið að þokast í þá áttina. Fréttaskýrendur fylgjast afar grannt með þessum deilum því litið er á þetta sem eitt af hugsanlegum átakasvæðum framtíðarinnar. Og það eru engir smápeð sem þarna myndu dragast inn í átök heldur annars vegar eina heimsveldið í dag, Bandaríkin, og hins vegar verðandi heimsveldið Kína. Mikið er í húfi og allir vilja vera viðbúnir ef upp úr sýður. Kínverjar hafa jafnt og þétt aukið herstyrk sinn við Taívansund sem nokkurs konar forvarna- eða fælingaraðgerð og á móti hefur Bandaríkjastjórn ítrekað heitið Taívan stuðningi ef svo færi að Kínverjar gerðu árás.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×