Innlent

Munntóbak hefur þrefaldast í verði

Munntóbaksskortur er á höfuðborgarsvæðinu. Munntóbak er ólöglegt samkvæmt lögum en þrátt fyrir það er mikið verslað með þessa vöru á svarta markaðnum. Munntóbaksmarkaðurinn er á ýmsan hátt líkur fíkniefnamarkaðnum. Heildsalar flytja inn munntóbak í stórum stíl og selja það síðan til smásala. Smásali sem Fréttablaðið ræddi við sagði að miðað við það hvernig markaðurinn væri núna væri alveg ljóst að löggæsluyfirvöld hefðu lagt hald á stóra sendingu af munntóbaki. Venjulega væri ein dós af munntóbaki seld á 500 til 600 krónur en nú væri verðið komið upp í allt að 1.800 krónur fyrir dósina. Svo virðist sem munntóbaksskorturinn teygi anga sína út fyrir höfuðborgarsvæðið því Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að dósin sé nú seld á allt að þúsund krónur á Akureyri. Lögreglan í Reykjavík kannaðist ekki við málið. Hún sagðist þó nokkuð oft fá ábendingar um munntóbakssala og hafa handtekið nokkra slíka. Snorri Olsen, tollstjóri í Reykjavík, sagðist ekki vita til þess að embættið hefði lagt hald á sendingu. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli vildi ekkert tjá sig um málið. Þeir sem eru teknir með munntóbak eru sektaðir um sjö krónur á hvert gramm eða um 350 krónur fyrir hverja dós.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×