Lífið

Pétur hvæsti á Will Smith

Strákarnir á Stöð 2 voru staddir í London á dögunum þar sem þeir tóku einkaviðtöl við stjörnurnar úr gamanmyndinni Hitch, með Will Smith í aðalhlutverki. Myndin hefur síðastliðnar tvær helgar verið á toppi aðsóknarlistans í Bandaríkjunum. Þeir Pétur, Sveppi og Auddi spjölluðu við Kevin James úr þáttunum King of Queens, þokkadísirnar Evu Mendez og Amber Valleta og leikstjórann Andy Tennant. "Þetta var algjör snilld. Við hittum liðið og vorum að bulla í þeim," segir Auddi. "James sýndi okkur nokkur dansspor því Will Smith sagði að hann kynni einhver Jackson-spor. Það var mjög gaman." Einnig vöktu þeir gríðarlega athygli á blaðamannafundi með Will Smith þegar Pétur hvæsti eins og köttur, leikaranum til mikillar skemmtunar. Bauðst hann til að útvega Pétri pláss í skemmtiþætti David Letterman sem milljónir horfa á í hverri viku. Verður gaman að sjá hvort Smith standi við stóru orðin. Landsmenn geta fylgst með þessu efni í þættinum Strákarnir frá og með morgundeginum og alla næstu viku. Þess má geta að tvær sjónvarpsstöðvar frá Belgíu og Hollandi hafa óskað eftir leyfi frá Stöð 2 til að sýna það sem gerðist á blaðamannafundinum með Smith, enda ekki á hverjum degi sem menn hvæsa eins og kettir á slíkum fundum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.