Innlent

Mótmæla byggingu Brimborgar

Bílaumboðið Brimborg hefur keypt lóð Gróðrarstöðvarinnar í Kópavogi fyrir 165 milljónir króna. Reisa á þrjú hús, samtals tæplega níu þúsund fermetra á 18.618 fermetra lóðinni auk bílakjallara undir byggingunum þremur fáist skipulagi svæðisins breytt. Hartnær níutíu íbúar mættu á fund sem nokkrir þeirra stóðu fyrir á þriðjudagskvöld. Heiðar Þór Guðnason íbúi í Skógarhjalla og talsmaður fólksins segir að skrifað hafi verið undir áskorun til bæjaryfirvalda um að breyta ekki núgildandi skipulagi. "Við höfum áhyggjur af jákvæðu hugarfari skipulagsnefndar bæjarins til framkvæmdanna og við höfum áhyggjur af því að búið sé að kaupa lóðina," segir Heiðar. Í kaupsamningi Brimborgar stendur að kaupanda sé kunnugt um að lóðinni sé úthlutað undir garðyrkjustöð og að önnur starfsemi sé ekki heimiluð þar nema með samþykki skipulagsyfirvalda Kópavogsbæjar. Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, segir bílaumboðið ekki hafa fengið vilyrði skipulagsyfirvalda um breytt skipulag en unnið hafi verið með þeim. "Við erum búnir að leggja fyrir þau tillögur og þau hafa skoðað teikningarnar, gert athugasemdir og við höfum brugðist við þeim," segir Egill. Byggingarleyfi á lóðinni hafi verið veitt öðrum og grunnur reistur. Það verði því byggt á lóðinni í framtíðinni hvort sem þar verði bílaumboð eða önnur húsnæði. Heiðar kallar eftir samstarfi við bæjaryfirvöld og gagnrýnir þau fyrir að virða ekki Staðardagskrá 21. Þar sé kveðið á um samráð íbúa á hverjum stað. Samkvæmt henni eigi einungis léttur iðnaður og einyrkjastarfsemi að fá byggingarleyfi innan íbúðarsvæða sem og starfsemi sem ekki krefjist mengunar, umferðar eða önnur óþægindi. Að því sé vegið með byggingu iðnaðarstórhýsis í stað græns svæðis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×