Innlent

Fyrsta sjúkrastofnun á Íslandi?

Vísbendingar um fyrstu sjúkrastofnun á Íslandi hafa fundist á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Tuttugu beinagrindur sem þar voru grafnar upp reyndust vera af fólki sem bjó við fötlun eða veikindi. Tvær af beinagrindunum sem fundust í fornleifauppgreftrinum voru reyndar svo óvenjulegar að menn spurðu hvor þær væru af Inúítum frá Grænlandi og að þær sýndu þar með áður ókunn tengsl Íslendinga og Inúíta fyrr á öldum. Nánari rannsókn dansks réttarlæknis virðist afsanna þá kenningu. Hins vegar sé það rétt hjá mannabeinafræðingum sem skoðuðu beinagrindurnar upphaflega að þær skera sig úr, þ.e. þær virðast vera af fötluðum einstaklingum. Mikið eyddar framtennur sem einkenndi Inúíta vegna leðuriðju urðu til þess að ýta undir Grænlandskenninguna. Hinar skrítnu tennur skýrir danski sérfræðingurinn hins vegar með áráttuhegðun tengda fötlun sem hefur orðið tilefni nýrrar kenningar um starfsemi á Skriðuklaustri; að þar hafi verið sjúkrastofnun. Þetta eru mjög merkilegar niðurstöður að sögn Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings því venjulega sé talið að klaustur á Íslandi hafi verið miðstöðvar mennta og menningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×