Innlent

Rafmagnsreikningur hækkar um 54%

Rafmagnsreikningur smáfyrirtækis í Kópavogi hækkaði um 54 prósent um áramótin þegar afsláttartaxti var felldur niður. Óvíst er að fyrirtækið lifi af hækkunina. Pólýhúðun við Smiðjuveg í Kópavogi er dæmigert íslensk smáfyrirtæki en þar vinna fjórir starfsmenn við að lita málmhluti. Þegar eigendur fyrirtækisins áttuðu sig á því að rafmagnsreikningurinn yfir árið hækkaði úr 1,4 milljónum króna upp í 2,2 miljónir brá þeim hins vegar hressilega. Sérstakur afsláttartaxti hafði verið felldur niður en í staðinn var fyrirtækið látið greiða heimilistaxta. Aðrir afsláttartaxtar sem Orkuveitan bauð upp á reyndust verri en venjulegi heimilistaxtinn þó að fyrirtæki eins og þetta kaupi fimmtíu sinnum meira rafmagn en meðalheimili. Ævar Einarssonar, framkvæmdastjóri Pólýhúðunar, segist hafa rætt málið við starfsmenn Orkveitunnar og þar séu menn að fara yfir það. Hann telur kerfisbreytingar um áramótin bitna illa á mörgum smáfyrirtækjum. Taxtinn verði allt að tvöfalt hærri en almenni taxtinn. Ævar segir að ef ekki náist fram breyting verði starfsmenn fyrirtækisins að fara að snúa sér að einhverju öðru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×