Innlent

Actavis: Segjast ekki okra

Lyfjafyrirtækið Actavis okrar ekki á íslenskum viðskiptavinum, þrátt fyrir að tölur úr lyfjaskrám sýni að Íslendingar borga meira en 2500% meira en Danir fyrir sama hjartalyf. Þetta segir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs fyrirtækisins. Eitt af lykilmarkmiðum Actavis er framleiðsla svokallaðra samheitalyfja sem má framleiða þegar einkaleyfi frumlyfsins rennur út. Actavis er eini framleiðandi samheitalyfja á Íslandi og samkeppni vegna innflutnings er hverfandi.  Einhverjir muna kannski eftir fyrirtækjum á borð við Omega Pharma, Delta, Pharmaco og Lyfjaverslun Íslands. Þau keyptu hvert annað og  framleiðslan heyrir nú undir Actavis. Sú samkeppni sem var til staðar fyrir 10 árum er því nær liðin undir lok.     Í fréttum Stöðvar 2 í gær voru birtar upplýsingar úr lyfjaskrám í Danmörku og á Íslandi sem sýndu allt að 2500% mun á heildsöluverði milli landanna. Um er að ræða samheitalyf frá Actavis og að minnsta kosti þrjú þeirra eru framleidd hér á landi. Guðbjörg E. Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs fyrirtækisins, segir danskan lyfjamarkað þó alls ekki sambærilegan. Þar hafi verðstríð geisað undanfarin ár og engin lyfjafyrirtæki hagnast á dönskum markaði, Actavis þar með talið. Aðspurð segist hún ekki vilja tjá sig um hvað sé eðlilegt og hvað óeðlilegt í þessu sambandi, en þó sé alltaf óeðlilegt að selja vöru undir kostnaðarverði. Tölurnar sem komið hafi fram í fréttum Stöðvar 2 í gær dugi sumar hverjar ekki einu sinni fyrir pökkuninni. Actavis gæti því neyðst til að flýja af dönskum markaði. Annað sem gerir markaði landanna ólíka er að í Danmörku er lyfjaverð frjálst og apótekum er uppálagt að selja viðskiptavinum ódýrustu lyfjategundina. Hér á landi sækja lyfjafyrirtækin hins vegar um heildsöluverð til lyfjagreiðslunefndar sem stendur, ef nefndin samþykkir uppsett verð.   Á síðasta ári var samkomulag gert milli fyrirtækjanna og ríkisins með það að markmiði að draga úr lyfjakostnaði. Heildsölukostnaðurinn lækkaði um 763 milljónir en hlutur samheitalyfjanna er 140 milljónir. Guðbjörg segir að síðan apótekakeðjurnar urðu til fyrir nokkrum árum hafi verið töluvert um að apótekin hafi fengið afslátt á lyfjum sem þau hafi svo að mestu leyti látið sína viðskiptavini njóta. Þegar Actavis þurfti að minnka sín lyf um 140 milljónir hafi fyrirtækið þurft að minnka þennan afslátt sem geri það að verkum að sjúklingurinn sjái ekki verðlækkunina en hún sjáist hins vegar í lyfjaverðskrá. Guðbjörg segist ekki halda að Actavis sé að okra á Íslendingum. Í þessu sambandi verði að hafa hugfast að Ísland sé afar lítill markaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×