Erlent

Löggur uppteknar við brottflutning

Stærstur hluti ísraelska lögregluliðsins verður upptekinn næsta sumar við að halda uppi lögum og reglu í tengslum við brotthvarf landnema frá landtökubyggðum Ísraela á Gaza-svæðinu. Yfirmenn lögreglunnar gera ráð fyrir að 18.000 af 26.000 lögreglumönnum landsins komi að brottflutningnum. 2.500 lögreglumenn sjá um að flytja landnemana á brott, 4.000 lögreglumenn verða við leiðir til og frá Gaza og rúmlega 11.000 hermenn verða til taks í borgum og bæjum Ísraels þar sem búist er við miklum mótmælum. Yesha, ráð landtökumanna, sagðist geta kallað á hundrað þúsund manns í baráttu gegn brotthvarfinu frá Gaza og að þetta fólk gæti gert mikið til að skemma fyrir áformum ráðamanna. Gideon Ezra, ráðherra almannaöryggis, sagði að leyniþjónusta landsins hefði upplýsingar um hættulega menn í röðum landtökumanna og bætti við að þeir yrðu afvopnaðir áður en brotthvarfið frá Gaza hæfist. Stjórnvöld óttast að öfgasinnaðir landtökumenn grípi til vopna til að verjast brotthvarfinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×