Innlent

2500% munur á lyfjaverði

Lítið hefur áunnist á því ári sem liðið er frá því að Ríkisendurskoðun kallaði eftir úrbótum vegna mikils verðmunar á lyfjum hér á landi og í Danmörku. Dæmi eru um allt að 2500 prósenta mun á heildsöluverði lyfja milli landanna, þrátt fyrir að þau komi frá sama framleiðanda: Actavis. Úttekt Ríkisendurskoðunar á lyfjakostnaði hér á landi sem birt var á síðasta ári leiddi í ljós að árið 2003 greiddu Íslendingar að meðaltali 46 prósentum meira fyrir lyf en Danir og Norðmenn. Ríkisendurskoðun setti fram margvíslegar ábendingar um það hvernig stjórnvöld, lyfjafyrirtæki og læknar gætu dregið úr kostnaðinum. Ef bornar eru saman tölur úr lyfjaskrá Íslands við lyfjaskrá í Danmörku frá því í síðustu viku kemur gríðarlegur verðmunur í ljós. Heildsöluverð þrjátíu lyfja var kannað og í ljós kom að verðið var allt frá 9 prósentum hærra hér á landi upp í 2588 prósent. Heildsöluverð á 30 töflu pakkningu af íbúfeni, bólgueyðandi og verkjastillandi lyfi, er 345 krónur á Íslandi. Það er 199 prósentum hærra en í Danmörku. Dermatin-hársápa, sem notuð er við vægum sýkingum, kostar 1104 krónur í heildsölu á Íslandi, eða 322 prósentum meira en í Danmörku. Pakkning með 20 töflum af paxal, tauga- og geðlyfi, kostar 217 krónur á Íslandi, eða 506 prósentum meira. Pakki með 30 töflum af amlo, hjarta- og æðasjúkdómalyfi, kostar um 2100 krónur á Íslandi, eða 1096 prósentum meira en í Danmörku. Toppnum er svo náð þegar kannað er verð á hjarta- og æðasjúkdómalyfinu sivacor. Heildsöluverð á pakka með 28 töflum er 1474 krónur á Íslandi en 55 krónur í Danmörku. Það þýðir að greitt er um 2500 prósentum meira fyrir sama lyf frá sama framleiðanda hér á landi. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir þennan mikla mun óeðlilegan en að samkomulag sem gert var við lyfjaframleiðendur og heildsala hafi þó skilað árangri. Heildsölukostnaður hefði til dæmis lækkað um 763 milljónir króna á síðasta ári. Stefnan var þó sett á að kostnaðurinn yrði sambærilegur við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Jón segir að þær skýringar sem hann hafi fengið séu munurinn á stærð markaðanna. Góður gangur er þó í viðræðum ráðuneytisins við lyfjaframleiðendur. Spurður hvort rétt sé að dýrara sé að koma verkjalyfi í verslanir hér en í Danmörku, þótt lyfið sé framleitt hér, segir hann svo vera. Forsvarsmenn Actavis sögðu í samtali við fréttastofuna í dag að danski markaðurinn væri ekki samanburðarhæfur vegna gríðarlegrar samkeppni. Það skýri að hluta til verðmuninn, auk stærðar danska markaðarins og smæðar þess íslenska.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×