Innlent

Bannað að nota bændaferðir

Ferðaskrifstofunni Terra Nova Sól er ekki heimilt að nota orðið „bændaferðir“ í auglýsingum og með öðrum hætti fyrir ferðir á vegum ferðaskrifstofunnar á þessu ári, samkvæmt ákvörðun samkeppnisráðs sem birt var í dag. Samkeppnisráð telur að með notkun á orðinu bændaferðir brjóti Terra Nova Sól gegn samkeppnislögum og hefur ferðaskrifstofunni verið bönnuð öll notkun orðsins, hvort heldur einu og sér eða sem hluta af samsettu orði. Verði ekki farið að banninu má gera ráð fyrir að viðurlögum verði beitt, segir í ákvörðun samkeppnisráðs. Bændaferðir ehf. kvörtuðu yfir vefsvæði og auglýsingum sem birtust í auglýsingablaði Terra Nova Sólar í nóvember síðastliðnum en þar voru sérferðir ferðaskrifstofunnar árið 2005 auglýstar undir nafni Bændaferða. Bændaferðir ehf. hafa frá árinu 1966 annast skipulagningu hópferða til útlanda og árið 1999 var stofnað einkahlutafélag um reksturinn undir sama nafni. Við ákvörðun samkeppnisráðs var meðal annars horft til þess að orðið bændaferðir væri ekki almennt orð í íslensku og að rök hnigu að því að orðið væri fyrst og fremst notað í tengslum við fyrirtækið Bændaferðir. Ráðið taldi auglýsingar Terra Nova Sól villandi og ósanngjarnar gagnvart keppinautum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×