Erlent

Áframhaldandi árásir súnníta

Öfgahópar súnnímúslima í Írak halda áfram að ráða sjítamúslima af dögum og eru árásir sem snerta óbreytta borgara orðnar nær daglegt brauð í landinu. Nú stendur yfir ein mikilvægasta trúarhátíð sjítamúslima sem nær hápunkti í dag. Á þessari hátíð í fyrra létu tæplega 200 sjítar lífið í árásum öfgamanna. Sjítar unnu sigur í nýafstöðnum þingkosningum eins og búist var við og fengu meirihluta atkvæða. Súnnímúslimar sátu að mestu heima og fengu því nær ekkert fylgi í kosningunum. Öfgahópar súnníta réðu að minnsta kosti 27 sjíta af dögum í gær. Í morgun hafa átta farist í slíkum árásum. Auk þess sprengdi maður á mótorhjóli sjálfan sig í loft upp í Bagdad í morgun í þyrpingu syrgjenda við mosku sjíta. Að minnsta kosti þrír létust og tæplega 40 særðust. Í moskunni fór fram útför konu sem fórst í sjálfsmorðsárás á sama svæði í gær. Árásir sem þessar eru nú orðnar nær daglegt brauð. Enn sem komið er vilja menn ekki kalla þetta trúarbragðastríð en árásirnar bera glöggt vitni um þá erfiðleika sem blasa við þjóðinni á komandi mánuðum og árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×