Erlent

Meiri réttur flugfarþega

Flugfarþegar eiga rétt á tugþúsunda króna greiðslum verði þeir af flugi fyrir verknað flugfélagsins sem þeir eiga bókað flug með. Þetta er hluti af nýjum reglum Evrópusambandsins um réttindi flugfarþega sem tóku gildi í gær. Meðal þess sem reglunum er stefnt gegn er yfirbókanir flugfélaga. Verði yfirbókanir til þess að farþegi komist ekki í flug sem hann á bókaðan miða í verður flugfélagið að greiða honum bætur, misjafnlega háar eftir því hversu langt ferðalag viðkomandi ætlaði í. Hámarksgreiðslan er nú tvöfalt hærri en áður. Flugfélögin eiga þó rétt á að reyna að leysa vandann með því að auglýsa eftir fólki sem er reiðubúið að breyta ferðaáætlun gegn því að fá auka flugmiða eða aðra þjónustu. Nýju reglurnar taka til alls flugs, hvort tveggja áætlanaflugs og leiguflugs, og lágfargjaldaflugfélaga jafnt sem annarra flugfélaga. Áður þurfti ekki að greiða bætur í leiguflugi, og ekki í áætlanaflugi ef flugi var aflýst. Talsmenn neytenda hafa fagnað nýju reglunum en viðbrögð forsvarsmanna flugfélaga eru blendnari. "Við verðum að tryggja að farþegar viti af þessum réttindum og notfæri sér þau," sagði Jim Murray, framkvæmdastjóri Samtaka evrópskra neytendasamtaka, í samtali við AP-fréttaþjónustuna. "Þetta er fáránleg löggjöf og við berjumst gegn þessu," sagði Michael Cawley, varaforstjóri Ryanair, í viðtali á útvarpsstöðinni BBC Radio 4. "Þetta hefur sáralítil áhrif hjá okkur," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. "Við höfum í raun farið að þessum reglum á undanförnum árum, eða sambærilegum viðmiðunum," segir hann og býst ekki við miklum breytingum vegna nýju reglnanna. Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Iceland Express, á ekki von á að þetta hafi stórkostleg áhrif á sitt félag. "Við fyrstu sýn sýnist mér þetta snúa meira að þeim vandamálum sem stóru gömlu flugfélögin hafa verið að glíma við, svo sem yfirbókanir," segir hann og tekur fram að slíkt gerist nánast aldrei hjá Iceland Express. Hann sagðist þó enn vera að kynna sér þetta og því gæti eitthvað breyst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×