Erlent

Sýrlensk yfirvöld grunuð um morðið

Þúsundir manna fylgdu Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, til grafar í morgun. Líkfylgdin var skipulagslaus og róstusöm og stór hluti syrgjenda hrópaði ókvæðisorð um yfirvöld í Sýrlandi sem eru grunuð um að hafa staðið að baki morðárásinni. Líkkista Hariris var borin um þriggja kílómetra leið frá heimili hans og að ókláraðri mosku sem hann hafði átt stóran þátt í að fjármagna og þar voru jarðneskar leifar hans grafnar. Alls létust fimmtán manns í sprengjuárásinni í Beirút á mánudag, auk árásarmannsins. Grunur leikur á að stjórnvöld í Sýrlandi beri að einhverju leyti ábyrgð á þessari árás þó erfitt sé að sannreyna það og Sýrlandsstjórn hafi þverneitað allri aðild. Ástæða þess að grunur fellur á Sýrlandsstjórn er að Hariri hafði opinberlega gagnrýnt ítök hennar í Líbanon og krafist þess að sýrlenskir hermenn yrðu kallaðir út úr landinu. Sýrlandsstjórn hefur lengi litið á Líbanon sem sinn bakgarð og áskilið sér rétt til að fara sínu fram í landinu. Íbúar í Líbanon höfðu lítið við það að athuga í upphafi enda áttu sýrlensk stjórnvöld sinn þátt í því að binda enda á blóðuga borgarastyrjöld í landinu. Upp á síðkastið hefur andstaðan hins vegar aukist og æ fleiri Líbanar krefjast þess nú að fá að stýra sínum málum sjálfir óáreittir. Morðárásin á Hariri hefur hleypt illu blóði í fólk sem sér fingraför Sýrlandsstjórnar á árásinni. Bandaríkjastjórn er sama sinnis og hefur kallað sendiherra sinn í Sýrlandi heim. Þá hvatti Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Sýrlandsstjórn til að draga hersveitir sínar, alls fjórtán þúsund hermenn, út úr Líbanon.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×