Lífið

Gömul hugmynd

Sverri Sv. Sigurðssyni viðskiptafræðingi fannst undarlegt að lesa grein Fréttablaðsins á laugardag um Vatnajökulsþjóðgarð. Ekki vegna þess sem þar stóð heldur vegna þess sem ekki stóð. Hans var hvergi minnst þegar tilurð þjóðgarðsins var rakin. "Ég fékk þessa hugmynd haustið 1992 og sannfærðist um að svona stórt svæði gæti komið sér vel fyrir markaðssetningu landsins. Áætlunin var fullmótuð um mitt ár 1993 og hugmyndir um svæðið sjálft og útlínur þess voru tilbúnar seinni hluta árs 1994. Í ársbyrjun 1995 birtust svo þrjár greinar eftir mig í Mogganum," segir Sverrir. En þar lét hann ekki staðar numið því í framhaldinu sendi hann þingmönnum og fleirum hefti með tillögu um friðun Vatnajökuls, sendi hugmynd sína í hugmyndasamkeppni og ritgerðarsamkeppni og skrifaði að lokum grein um tengt efni í minningarbók um Eyjólf Konráð Jónsson, alþingismann og ritstjóra. Sverrir er ekki fúll þó að nafni hans hafi ekki verið haldið á lofti í tengslum við málið síðustu ár og segir fullkomlega eðlilegt að þáttur hans í málinu hafi gleymst. "Já, já, það er að sjálfsögðu eðlilegt því ég hélt mig til baka á meðan málið var að þróast. Ég dró mig alveg í hlé 1998. Það er engin fýla, alls ekki," segir hann en bendir réttilega á að sagan sé ekki öll sögð þegar hans þáttar er ekki getið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.