Lífið

Allsherjar drykkjukeppni á Prikinu

Tökum á nýju myndbandi rappsveitarinnar Quarashi við lagið Payback lauk með allsherjar drykkjukeppni á skemmtistaðnum Prikinu í gærkvöld á milli sveitarmeðlima og stúlknagengis. Myndbandið verður frumsýnt í Japan þann 21. febrúar en Payback verður fyrsta smáskífulag plötunnar Guerilla Disco sem kemur út 2. mars þar í landi. Verður myndbandið að öllum líkindum frumsýnt hérlendis um svipað leyti. Tökur hófust á rallíkrossbrautinni í Kapelluhrauni í fyrradag þar sem meðlimir Quarashi öttu kappi við stúlknagengið, en þrjár stúlkur voru valdar fyrir myndbandið úr hópi fjölda umsækjenda. Næsta atriði var tekið á Álftanesi í gær. Þar keppti Ómar Swarez við eina stúlkuna í körfubolta með sjóinn í baksýn í miklu roki og rigningu. Næsta atriði var tekið upp inni á karlaklósettunum í Laugardalshöll og það síðasta var tekið á Prikinu. Leikstjórar voru þeir Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll en þeir gerðu síðast myndbandið við lag Quarashi og strákanna í 70 mínútum, Crazy Bastard. Tökumaður var Óttar Guðnason, sem er einn sá fremsti í faginu hér á landi. Síðasta verkfni hans var Hollywood-mynd Baltasars Kormáks, A Little Trip To Heaven. Upphaflega átti að taka myndbandið upp í Úkraínu en hætt var við vegna mikils kostnaðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.