Innlent

Grenndarkynning barst alltof seint

Nágrannar rússneska sendiráðsins við Garðastræti 35 eru margir hverjir ósáttir við þá sjónmengun sem stafar af timburkofum sem hafa verið þar í byggingu undanfarið eitt og hálft ár. Fyrir jólin barst nokkrum nágrönnunum svokölluð grenndarkynning vegna byggingar kofanna en samkvæmt reglum á að senda út slíka kynningu áður en framkvæmdir hefjast. Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd eða deiliskipulagsbreytingu skriflega og gefur þeim kost á að tjá sig um málið innan ákveðins frests sem má ekki vera skemmri en fjórar vikur. "Ég hringdi og gerði athugasemd til að undirstrika að allur framgangur í málinu hefur verið hlægilegur af hálfu Skipulagsstofnunar," segir Rúdolf Adolfsson, nágranni sendiráðsins. "Ég er þó ekki að kvarta yfir nábýlinu við Rússana, það má ekki túlka það svo. En ég veit ekki fyrir hvern þessi kynning var. Ætli þetta hafi bara ekki verið skrifræðisbáknið að sinna sínum skyldum," segir Rúdolf. Bætir hann því við að miðað við vinnulagið til þessa sé talsvert langt í að bygging skúranna klárist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×