Innlent

Í andlegum tengslum við hesta

Þýskur „hestahvíslari“ hefur flust hingað til lands til að geta unnið með íslenska hestinn í upprunalandinu. Aðferðirnar felast meðal annars í því að tala við hestinn og ná góðum andlegum tengslum við hann. Þýski lögfræðingurinn og hestaþjálfarinn Karola Schmeil kolféll fyrir íslenska hestinum fyrir 25 árum síðan. Hún notar aðferðir sem mörgum virðast nýstárlegar þó skyldar aðferðir hafi verið notaðar og kenndar hér á landi á síðustu árum. Aðferðirnar eru að stórum hluta sálfræðilegar - hún hreinlega talar við hestana og les út úr líkamshreyfingum þeirra og látbragði. Karola telur þetta vera réttu leiðina til að vera í sambandi við hestinn, að líta á hestinn sem persónuleika. „Maður á að vera vinur hans. Og ef maður vill eiga vin verður maður að vera í góðu sambandi við hann,“ segir Karola.  Hesturinn Sproti hafði tapað gleðinni sem einkennir svo mjög íslenska hestinn. Karola tók hann í endurhæfingu. Fyrst er eingöngu lögð áhersla á sálræna þáttinn, til að fá hestinn til að slaka á og treysta þjálfaranum. Og hún segir auðvelt að komast að því hjá hestum hvort þeir séu hamingjusamir eða sorgmæddir ef maður er vanur skepnunum.   Á fyrstu vikum þjálfunarinnar fær hesturinn að ráða hraðanum og gangtegundum og Karola hleypur með en fer ekki á bak. Takmarkið er að vekja upp leikgleði en um leið styrkist hesturinn mjög og liðkast. Hún hefur einnig tekið keppnishesta í fremstu röð í meðferð. Og þetta tekur sinn tíma, segir Karola, sem gagnrýnir að íslenskir hestar séu oft tamdir of hratt. Þar sem þetta eru ekki mjög algeng aðferð hér á landi er fólk stundum tortryggið. Karola segir fólk spyrja hvað hún sé eiginlega að hugsa að vera með hestinn úti um hávetur, láta hann ganga í hringi og tala við hann. En eftir nokkrar vikur sér fólk gríðarlegan mun á hestunum og sannfærist þar með um að aðferðirnar virka, segir Karola, sem getur vart hugsað sér að starfa við neitt annað en íslenska hesta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×