Innlent

2/3 vöruflutninga hjá Flugleiðum

Tveir þriðju hlutar vöruflutninga í flugi milli Íslands og annarra landa eru nú í höndum Flugleiða eftir að félagið keypti flugfélagið Bláfugl í vikunni. Bláfugl er eitt þriggja flugfélöga sem stunda fraktflug til og frá Íslandi en hin eru Flugleiðir og Íslandsflug. Tölur um markaðshlutdeild þeirra liggja ekki á lausu en þó ber þeim sem vel þekkja til saman um að Flugleiðir séu þar stærstir, með um eða innan við helming flutninganna. Íslandsflug, sem flýgur fyrir DHL-hraðflutninga, er talið hafa sinnt um þriðjungi markaðarins og loks er yngsta félagið, Bláfugl, talið hafa haft um fimmtung. Nú í vikunni var tilkynnt um að Flugleiðir hefðu keypt Bláfugl ásamt flutningamiðlunarfyrirtækinu Flugflutningum fyrir samtals 3,8 milljarða króna. Með kaupunum er talið að markaðshlutdeild Flugleiða í frakflugi til og frá Íslandi fari í 60 til 70 prósent en kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Fraktflug er sú grein flugsins sem hvað örast hefur vaxið á undanförnum árum sem sést best á vexti Bláfugls. Ekki eru liðin nema fjögur ár frá því Bláfugl fékk sína fyrstu þotu en þær eru nú orðnar fimm og sú sjötta er væntanleg. Meginhluti starfsemi Bláfugls, eða um 80 prósent, fer hins vegar fram erlendis en starfsmenn félagsins eru um 50 talsins, þar af 30 flugmenn. Bláfugl var í eigu um áttatíu einstaklinga, aðallega Íslendinga, sem margir nefndust áður Cargolux í Lúxemborg. Helstu eigendur Bláfugls voru Þórarinn Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins, og Einar Ólafsson, sem var stjórnarformaður, en hann var lengi framkvæmdastjóri Cargolux.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×