Innlent

Talstöðin talmeinastöð?

Hin nýja útvarpsstöð, Talstöðin, sem tók til starfa í morgun er hvergi skráð með síma. Fyrirtæki með sama nafn er til húsa í Kópavogi. Þar starfa nokkrir talmeinafræðingar. Ef hringt er í 118 fá menn þau svör að eina fyrirtækið sem skráð sé með því nafni sé Talstöðin í Hamraborg 1 þar sem þrír talmeinafræðingar starfa. Fréttastofan hringdi í þá Talstöð og fékk þau svör að ekki hefði verið neitt ónæði ennþá, af þeim sem væru að reyna að hringja í útvarpsstöðina. Hins vegar hefði þeim óneitanlega brugðið í brún í morgun þegar þau fréttu að ný Talstöð væri komin til skjalanna. Útvarpsstöðin Talstöð er á tíðni 90,9. Hún er undir stjórn Illuga Jökulssonar og er talmálsstöð þar sem áhersla verður lögð á fréttir, fróðleik, skemmtun og gagnrýna umræðu, að sögn forráðamanna. Sagt er að lögð verði áhesla á að hlustendur geti verið í sambandi við dagskrárgerðarmenn og er þess því að vænta að stöðin komi símamálum sínum í lag fljótlega. Meðal dagskrárgerðarmanna eru Sigurður G. Tómasson, Ragnheiður Gyða Jónsdóttir, Ingvi Hrafn Jónsson, Helga Vala Helgadóttir, Hallgrímur Thorsteinsson og Róbert Marshall.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×