Innlent

Hafa áhyggjur af frumvarpi

EOL
Verkalýðsforystan hefur þungar áhyggjur af væntanlegu frumvarpi félagsmálaráðherra um breytingar á fyrirkomulagi útgáfu atvinnuleyfa fyrir útlendinga. Árni Magnússon félagsmálaráðherra kynnti forystumönnum ASÍ fyrir skemmstu að frumvarp sem fæli í sér breytingar á þessu fyrirkomulagi væri í bígerð og að til greina komi að dómsmálaráðuneytið muni hafa þessi mál á sinni könnu. "Ef málefni vinnumarkaðarins verða sett undir dómsmálaráðuneytið óttumst við að það dragi úr aðkomu fulltrúa vinnumarkaðarins og atvinnurekenda og önnur sjónarmið en vinnumarkaðsál munu ráða för." Í síðustu viku ræddi fjármálaráðherra um skýrslu þar sem fram kemur að áætlaðar tapaðar tekjur hins opinbera vegna svartrar atvinnustarfsemi nemi 18 til 24 milljörðum króna. Guðmundur Gunnarsson segir það mótsagnakennt að á sama tíma og fjármálaráðherra vilji skera herör gegn skattsvikum, ætli félagsmálaráðherra að leggja fram frumvarp sem muni hugsanlega draga úr eftirliti með erlendu launafólki. "Slíkt frumvarp myndi beinlínis miðast við að stækka neðanjarðarhagkerfið," segir Guðmundur. Guðmundur bendir á að það sé ekki óalgengt í byggingargeiranum á Íslandi að menn flyti inn erlent vinnuafl sem vinnur svart fyrir laun sem eru lægri en lágmarkslaun og njóti þar að auki engra réttinda á borð við veikindafrís eða orlofs. Hann segir það sé nóg pláss á íslenskum vinnumarkaði fyrir erlent vinnuafl en það verði að fara eftir settum reglum í þessum málum og ef stjórnvöld vilja sporna við vandanum verði að vera virkt eftirlit með þessum málum. "Menn verða að spyrja sig hvernig fyrirtæki með einn skráðan starfsmann geta reist heilu íbúðablokkirnar." Ekki náðist í Árna Magnússon félagsmálaráðherra eða Siv Friðleifsdóttur, formann félagsmálanefndar, vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×