Innlent

Bjóðast til að sýna leiki á Sýn

Sjónvarpsstjóri Sýnar hefur boðið sjónvarpsstjóra Skjás eins að senda út á Sýn þá leiki í ensku knattspyrnunni sem Skjár einn sendir út án þula. Útvarpsréttarnefnd úrskurðaði fyrr í vikunni að Skjá einum væri óheimilt að senda út leiki úr ensku knattspyrnunni án þess að vera með íslenska þuli. Skjár einn hefur skýrt það svo að það sé kostnaðarsamt að hafa þuli á öllum leikjum. Hilmar Björnsson, sjónvarpsstjóri Sýnar, hefur sent Magnúsi Ragnarssyni, sjónvarpsstjóra Skjás eins, bréf þar sem Sýn býðst til að taka við þeim leikjum sem Skjár einn telur sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að lýsa og taka á sig allan kostnað við það. Arnar Björnsson, íþróttafréttastjóri Stöðvar 2 og Sýnar, segir að Sýn ætli að fara að lögum og að starfsmenn Sýnar séu tilbúnir að lýsa leikjunum á íslensku eins og lög geri ráð fyrir. Það var Þorsteinn Gunnarsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2 og Sýn, sem kærði útsendingar Skjás eins. Á skjánum í dag og í blaðaauglýsingum hefur verið lögð áhersla á það að starfsmaður Sýnar standi á bak við kæruna. Arnar segir Þorstein hafa gert þetta upp á sitt einsdæmi og Sýn komi hvergi þarna nærri. Þorsteini Gunnarssyni hafi blöskrað að menn skyldu ekki fara að lögum. Forráðamenn Skjás eins hljóti að hafa vitað það þegar þeir buðu í enska boltann að þeim bæri að senda leikina út með íslensku tali og hann undrist að Blaðamannafélagið skuli ekki hafa tekið á málinu miklu fyrr því þarna sé vegið að starfsheiðri manna. Auðvitað eigi íslenskar sjónvarpsstöðvar að bjóða upp á efni á íslensku og ekkert annað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×