Innlent

Framsóknarflokkurinn tekur dýfu

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna er á svipuðum nótum og aðrar kannanir hafa sýnt, að öðru leyti en því að Framsóknarflokkurinn tekur dýfu niður. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, en samkvæmt könnuninni styðja átta prósent kjósenda flokkinn. Hann segir möguleika á að sá styr sem hefur staðið um flokkinn að undanförnu geti valdið þessu. Hann bendir á að Framsóknarflokkurinn komi oft illa út í könnunum, þó að hann fái sjaldan svona lítið fylgi. Á síðasta ári fékk flokkurinn tvisvar svipað fylgi og nú í könnunum Fréttablaðsins. Í júní fékk flokkurinn 8,1 prósents fylgi og í júlí sögðust 7,5 prósent styðja flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt nokkuð frá síðustu könnunum og fær nú stuðning hjá 35 prósentum kjósenda, eða álíka mikið fylgi og Samfylkingin fær samkvæmt könnuninni. Stjórnarflokkarnir tveir fá ekki meirihlutafylgi samkvæmt könnuninni, heldur njóta þeir stuðnings 43 prósenta kjósenda. Flokkarnir tveir myndu fá 28 þingmenn yrði boðað til kosninga nú, Framsókn fengi fimm en Sjálfstæðisflokkurinn 23 þingmenn. Ólafur segir að fylgið við stjórnina hafi verið í kringum 50 prósent það sem af er kjörtímabilsins, og þetta sé því ekki út úr korti miðað við það sem verið hefur. Vinstri-grænir njóta nú 14,4 prósenta fylgis sem er nokkuð meira en flokkurinn fékk í kosningum. Í könnunum blaðsins hefur flokkurinn samt ekki notið minni stuðnings síðan í maí á síðasta ári. Þetta fylgi myndi duga fyrir níu þingmönnum, í stað þeirra fimm sem flokkurinn hefur nú. Stuðningur við Frjálslynda flokkinn rúmlega tvöfaldast miðað við könnun blaðsins í nóvember og mælist nú 6,7 prósent. Það er aðeins minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, en flokkurinn héldi sínum fjórum þingmönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×