Innlent

Boðsferðir lækna á fimmta hundrað

"Það er ótrúlegt að opinberar stofnanir hafi ekki fylgst með því hversu mikið starfsmenn þeirra ferðast á kostnað hagsmunaaðila," segir Ásta R. Jóhannesdóttir alþingismaður um svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hennar um utanlandsferðir lækna á kostnað lyfjafyrirtækja. Í svarinu kemur fram að íslenskir læknar fóru í 469 utanlandsferðir sem lyfjafyrirtæki greiddu fyrir. Þessar tölur byggja á könnun sem Lyfjastofnun gerði á meðal lyfjafyrirtækja, en í svari heilbrigðisráðherra segir að fæstar heilbrigðisstofnanir hefðu áreiðanlegar upplýsingar um utanlandsferðir lækna sem stofnunin hefði ekki kostað. Aðeins fengust upplýsingar um fjölda ferða, ekki hversu margir læknar fóru í þær. Þá er tekið fram að þetta séu lágmarkstölur þar sem könnunin var gerð fyrir árslok og eitt lyfjafyrirtæki svaraði ekki fyrirspurninni. Ásta segir það umhugsunarvert hversu mikið sé um að læknar ferðist á vegum fyrirtækja. "Það fer að meðaltali einn, ef ekki tveir, á dag í slíkar ferðir á hverju ári og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt. "Það verður að viðurkennast að þar til nýlega höfum við ekki haft áreiðanlega skráningu á þessu," segir Jóhannes M. Gunnarsson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss. Læknar Landspítalans fóru í 289 ferðir í boði lyfjafyrirtækja í fyrra, en rúmlega fimm hundruð læknar starfa á spítalanum. Jóhann bendir á að í ágúst í fyrra hafi Landspítalinn sett reglur um samskipti lækna og söluaðila og fleiri reglur séu í farvatninu. "Það er viðhorf sumra lækna að það komi vinnuveitandanum ekki við hvað þeir geri í sínum frítíma, en okkar skoðun er að það sé ástæða til að vera á varðbergi gagnvart viðskiptamönnum spítalans. Í smíðum eru reglur um risnu starfsmanna spítalans, gjafir, kostun ferðalaga og ráðstefnugjalda." Jóhannes segir að sér sé ekki kunnugt um að formlegar reglur um þessi mál séu í gildi á öðrum heilbrigðisstofnunum en minnir á samkomulag Læknafélags Íslands og lyfjafyrirtækja sem sé í svipuðum anda og reglur Landspítalans um samskipti lækna og söluaðila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×