Innlent

Dettifoss kominn á lygnan sjó

Búist var við því í gærkvöldi að varðskipin Týr og Ægir kæmu kæmi með flutningaskipið Dettifoss í togi til hafnar á Eskifirði í nótt. Þau voru stödd í mynni Reyðarfjarðar um klukkan sjö í gærkvöld. Stýrisblað skipsins brotnaði af um klukkan átta á föstudagskvöld þar sem það var statt austur af landinu á leið til Eskifjarðar frá Reykjavík. Þá var þungt í sjóinn og mikið rok. Um miðjan dag í gær gekk veðrið niður og þá tókst að koma taug á milli skipanna og siglt í átt að landi. Karl Gunnarsson, svæðisstjóri Eimskipa á Austurlandi, sagði í gærkvöldi að siglingin gengi vel þrátt fyrir að enn væri þungt í sjóinn. Kafarar um borð í Tý ætluðu að kafa niður að hliðarskrúfu Dettifoss þegar komið væri inn í Reyðarfjörð. Skrúfan bilaði á meðan skipið rak og er talið að dráttartóg sem slitnaði úr skipinu hafi flækst í skrúfunni. Mikilvægt er að skrúfan virki þegar Dettifoss leggst að bryggju á Eskifirði. Þrettán menn eru í áhöfn Dettifoss, allir Íslendingar. Karl segir þá hafa það gott enda hafi verið lögð áhersla á að þeir færu varlega á meðan óveður geysaði. Skipið flytur 850 gáma með um 6.000 tonn af vörum, mest fiski og áli. Skemmdir á skipinu verða skoðaðar þegar það kemur í höfn. Viðgerðir á því fara þó að líkindum fram erlendis. Skipið verður því væntanlega aftur dregið yfir hafið þar sem hægt er að taka það upp í flotkví. Karl segist vita til þess að stýrisblöð hafi áður dottið af fraktskipum. "Það virðist hafa færst í vöxt. Ég veit ekki hvort smíðagalla er um að kenna eða málmþreytu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×