Lífið

Sissel syngur fyrir landann

Tónleikafyrirtækið Concert hefur náð samningum við norsku söngkonuna Sissel Kirkjebö um að halda tónleika með henni í Háskólabíói 30. september nk. Sissel hefur haldið fjöldamarga tónleika víðs vegar um heiminn og m.a. sungið fyrir húsfylli í Carnegie Hall í New York og opinbert lag Ólympíuleikanna í Lillehammer 1994 ásamt Placido Domingo. Þetta er í fyrsta sinn sem hún kemur hingað þrátt fyrir gríðarlegan fjölda aðdáenda hennar hér á landi. Tónleikarnir verða haldnir í samvinnu við norska sendiráðið. Sissel mun koma fram með strengjasveit og barnakór á tónleikunum. Miðasala mun hefjast um miðjan mars en aðeins 900 sæti eru í boði. Sissel fæddist í Bergen í Noregi árið 1969. Hún hefur verið stjarna í Noregi frá barnsaldri en vakti fyrst athygli umheimsins þegar hún söng með ótrúlegum glæsibrag í opnunar- og lokaathöfn Vetrarólympíuleikanna í Lillehammer í Noregi árið 1994. Í tengslum við leikana fór hún í tónleikaferð um allan heim og tók upp opinbert lag Ólympíuleikanna, „Fire in your heart“, ásamt Placido Domingo sem náði mjög miklum vinsældum. Sissel hefur haldið fjöldamarga tónleika víðs vegar um heiminn og söng fyrir húsfylli í Carnegie Hall í New York ásamt the Chieftains árið 1997. Á hverju ári fer hún í jólatónleikaferð um Skandinavíu og á þá tónleika er oftast orðið uppselt strax í september. Hún hefur einnig gert garðinn frægan í leikhúsi og var mikið lofuð fyrir leik sinn í hlutverki Maria von Trapp í Sound of Music og Sólveigar í verki Henrik Ibsen, Peer Gynt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.