Innlent

Búið að lagfæra girðingu

Búið er lagfæra girðingu á lóð fyrirtækisins Ásgeirs Sigurðssonar við Síðumúla 35 að kröfu Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Fyrirtækið fullyrðir að umbúðir hættulegra efna sem voru á lóð fyrirtækisins í gær hafi verið tómar og á leið til áfyllingar hjá birgjum þann sama dag. Eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 í gær gerði eftirlitsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu athugasemd við það í júní í fyrra að engin girðing væri utan um hættuleg efni á lóðinni. Í gær var aftur gerð athugasemd við að girðingin væri ekki mannheld og farið fram á það yrði lagað. Páll Björnsson, einn eigenda fyrirtæksins, segir miður ef aðstæður hafi valdið óöryggi hjá einhverjum nágrönnum. Fyrirtækið hafi hins vegar 110 ára reynslu í meðferð hættulegra efna og myndi aldrei stofna umhverfinu í hættu. Í skýrslu eftirlitsmannsins frá því í gær segir að efnavörur í porti sem geti flokkast sem hættuleg efni eigi að fara inn á lager eða að vera á afgirtu svæði. Ekki sé hins vegar gerð athugasemd við eiturflokkaðar efnavörur. Þær hafi verið geymdar í læstum gámi á lóðinni. Þá skoðaði eftirlitsmaður umbúðir fyrir framan húsið og staðfesti að gashylki fyrir utan fyrirtækið sem innihéldu áður ammoníak væru tóm. Í dag var búið að hengja miða á girðinguna um að allar umbúðir innan hennar væru tómar. Örn Sigurðsson hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu staðfesti svo í dag að fyrirtækið hefði brugðist hratt og vel við og hefði lagfært girðingu eftir heimsókn eftirlitsmannsins í gær og því væri umhverfið komið í viðunandi horf. Eldvarnareftirlitið hefur haft afskipti af fyrirtækinu varðandi brunavarnir. Bjarni Kjartansson segir að brunavarnakerfi hússins við Síðumúla 35 sé orðið mjög gott eftir að gerðar hafi verið úrbætur að kröfu eftirlitsins fyrir tveimur árum. Hluti af gámum undir eiturefni hafi hins vegar verið settir undir bert loft. Eiturefni á lóð séu hins vegar ekki á forræði eftirlitsins alla jafna nema líklegt þyki að eldur nái að læsa sig í þau.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×