Innlent

Skaðabætur vegna slyss

Reykjavíkurborg verið gert að greiða konu 2,5 milljónir króna með vöxtum vegna tjóns sem hún varð fyrir árið 2002 þegar skyggni við Ingólfstorg féll niður og á konuna þar sem hún var viðstödd Gay Pride hátíðahöldin. Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu í gær. Skipuleggjandi göngunnar var hins vegar sýknaður af kröfu konunnar. Þegar lokaskemmtun hátíðahaldanna hófst á Ingólfstorgi á sínum tíma tók fólk að klifra upp á skyggni við torgið með þeim afleiðingum að framhlið þess féll niður. Tugir manna urðu undir því og konan sem fór fram á skaðabætur fékk höfuðhögg og skurð á höfuðið. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar hefði Reykjavíkurborg átt að hafa í huga við gerð skyggnisins að börn hafi tilhneigingu til að komast eins nærri skemmtiatriðum og kostur er. Í ljósi þessa hafi verið varhugavert að hafa skyggnið uppi. Þótt kenna megi ungmennunum sem í hlut áttu um slysið var það einnig rakið til gáleysis starfsmanna Reykjavíkurborgar. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur sýknað bæði Reykjavíkurborg og aðstandendur Gay Pride.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×