Innlent

Bíða á hóteli eftir íbúðinni sinni

Afhending á íbúðum í 101 Skuggahverfi hefur dregist verulega og hafa um 15 manns "lent illa í því", eins og Einar Halldórsson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Stoða, orðar það. Þetta fólk hefur búið á hótelum eða í leiguíbúðum í nokkrar vikur eða mánuði. Stærsti hópurinn, um tíu manns, hefur búið í leiguíbúðum á Hótel Fróni, sumir jafnvel frá því fyrir jól. "Við höfum reynt að axla þessa ábyrgð þó að ekki hafi verið við okkur að sakast að afhending hafi dregist svona og sjá til þess að fólkið lenti ekki á vergangi. Þetta er mjög bagalegt og hefur komið illa við marga en sumt af þessu fólki ætlaði að innrétta sína íbúð sjálft og þá ræður það ferðinni. Það eru þá íbúðir sem við höfum afhent en eru í innréttingum á vegum þessa fólks," segir hann. "Það er erfitt að negla niður tíma hvenær fólkið hefði átt að geta flutt inn því að það fer svolítið eftir því hvað það tekur langan tíma að innrétta íbúðina hjá því. Við innréttum þær íbúðir sem átti að skila tilbúnum án gólfefna og síðan höfum við tekið að okkur með viðbótarsamningi að innrétta hluta af hinum íbúðunum og þá eru mismunandi afhendingartímar á því," segir Einar. Gísli Úlfarsson, sölustjóri á Hótel Fróni, segir að sumir hafi búið þar stutt og aðrir lengur en að tveir til þrír fái afhent á næstu dögum og svo fari þetta smám saman að leysast. Ýmsar ástæður hafa valdið töfinni en Einar segir að ekki hafi náðst þau afköst í verkinu sem miðað hafi verið við. Guðrún Árnadóttir, fasteignasali á Húsakaupum, segir að kaupendur hafi í töluverðum mæli samið við Stoðir um breytingar á íbúðunum og það hafi meðal annars tafið afhendingu. Fjölbýlishúsin í 101 Skuggahverfi eru byggð í þremur áföngum og er fyrsti áfangi risinn. Afhending íbúðanna er að hefjast en síðustu íbúðirnar verða afhentar í júní.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×