Innlent

Brennisteinn fluttur út á 14. öld

Umfangsmikil vinnsla á brennisteini var stunduð að Gásum í Eyjafirði á 14. öld. Þetta sýna fornleifarannsóknir sem þar standa yfir og eru þetta því elstu minjar um iðnað á Íslandi. Brennisteinninn var einkum seldur í byssupúður og virðast Íslendingar því snemma hafa tengst hergagnaframleiðslu. Fornleifafræðingar hafa rannsakað minjarnar að Gásum undanfarin fjögur sumur en við mynni Hörgár var skipahöfn og verslunarstaður fyrr á öldum. Menn áttu hins vegar ekki von á því að finna þarna minjar um iðnrekstur en vísbendingar eru um að brennisteinn hafi verið hreinsaður í sérstökum gryfjum að Gásum. Orri Vésteinsson fornleifafræðingur segir að hingað til hafi verið talið að Íslendingar hafi flutt brennistein út óhreinsaðan en greinilegt sé að menn hafi a.m.k.reynt að hreinsa hann. Aðferðirnar hafi hins vegar verið frumstæðar. Grafin hafi verið gryfja, brennisteinninn settur ofan í og svo kveikt í þannig að talsverður hluti hans hafi þá farið forgörðum. Þetta sé elsta þekkta aðferðin við að hreinsa brennistein og svo mikið sé af honum að Gásum að greinilegt sé að brennisteinsútflutningur hafi verið mikilvægur á 14. öld. Hráefnið kom úr Mývatnssveit en Námaskarð er kennt við brennisteinsnámur sem þar voru. Það má segja að hergagnaframleiðsla hafi verið stunduð að Gásum því brennisteinninn var aðallega notaður í byssupúður. Orri segir að hann hafi þó verið notaður í ýmislegt annað, m.a. til þess að hreinsa bjórtunnur og í málningu. Á 14. öld verði miklar framfarir í málaralist og brennnisteinninn eigi pínulítinn þátt í því. Minjarnar að Gásum frá 14. öld eru þær elstu fundist hafa hérlendis um jarðefnaiðnað til útflutnings. Orri segir að auðvitað hafi menn stundað járnvinnslu og járnsmíði frá upphafi byggðar og ýmiss konar smíðar aðrar en þetta sé eina dæmið um iðnað þar sem vara er framleidd fyrir markað erlendis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×