Lífið

Það er ekki til frásagnar

Steingrímur Steinþórsson, bókaútgefandi í Skruddu, er 54 ára í dag. Tímamótin hringdu í hann og spurðu fyrst hvernig þetta hefði gengið í ár. "Bókaútgáfan hjá okkur gekk vel. Og það er eiginlega sama sagan hjá öllum sem ég hef talað við í greininni. En þessa dagana erum við að taka við bókum úr dreifingunni, skilunum. Mann svíður auðvitað í hjartað við hvern einasta kassa. En þetta var ágætt." Hvaða bækur voru nú helstar hjá ykkur fyrir þessi jól? "Stærsta bókin var þriðja bindið í hinu ágæta verki Gísla Sigurðssonar, Seiður lands og sagna, þar sem hann fjallar um Suð-Vesturland. Áður voru komin tvö bindi en þetta þriðja seldist betur en hin tvö og svo á þetta auðvitað eftir að seljast. Þetta er stórvirki sem selst svona mallandi allan ársins hring. Nú svo var það Flosi. Hún gekk ljómandi vel eins og við mátti búast, þótt hún næði ekki sömu stórsölunni og bókin hans í fyrra. Jöklaveröld Helga Björnssonar. Fyrirfram bjuggumst við ekki við stórsölu í þessari bók en hún kom mjög vel út. Þá vorum við með smásagnasafn eftir Ágúst Borgþór Sverrisson og nýja bók eftir spennusagnahöfund, Ian Rankin, sem ekki hefur átt bók á íslenskum markaði fyrr en er vel þekktur í Bretlandi. Við vorum með sjö bækur á síðasta ári og við kvörtum ekkert undan útkomunni." Hvað er svo framundan? "Mesta stórvirkið hjá okkur á komandi mánuðum er stórvirki Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings um Lagarfljót. Þetta er mikil bók prýdd fjölda mynda. Höfundurinn er löngu landskunnur fyrir skrif sín og rannsóknir í náttúrufræði. Við erum líka að undirbúa útgáfu á lítilli bók eftir Sigurjón Björnsson sálfræðing um Skagann og Skagaheiði. Þar er mikill fróðleikur sem ekki hefur verið aðgengilegur áður, örnefni, reiðleiðir og sögulegt efni. Nú, við erum líka að fást ofurlítið við kiljuútgáfu. Bók Rankins, Með köldu blóði, kemur út í kilju og einnig ný þýðing af eldri bók eftir hann. Þá erum við að gefa út að nýju í kilju, hina frægu bók Salingers "Bjargvætturinn í grasinu", í þýðingu Flosa Ólafssonar. Svo það eru næg verkefni." Ætlarðu að halda upp á afmælið Steingrímur? "Nei, ekki get ég sagt það. Við gerum okkur kannski smá dagamun hjónakornin en það er ekki til frásagnar. Ég held ekki upp á afmæli nema á svona tíu ára fresti."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.