Innlent

Mjólk tvöfalt dýrari en í Danmörku

Nýmjólk er orðin tvöfalt dýrari hér á landi en í Danmörku, en lágt verð í Danmörku er rakið til eðlilegrar samkeppni þar í landi. Verð á helstu neysluvörum hér á landi er það fjórða hæsta í 30 Evrópulöndum sem norska hagstofan kannaði. Algengt verð hér er rúmlega 80 krónur fyrir lítrann, en rúmlega 40 krónur í Danmörku. Jyllands-Posten greinir frá því að samkeppni stóru verslanakeðjanna hafi haft áhrif til lækkunar á mjólkurverði en til þess að það sé hægt þurfa mjólkurstöðvar og bændur líka að taka þátt í samkeppninni. Engin samkeppni er hins vegar á milli bænda og mjókurstöðva hér á landi, eitt heildsöluverð er á öllu frá þeim og ræður Mjólkursamsalan í Reykjavík yfir yfirgnæfandi meirihluta markaðarins. Þá er á það að líta að laun á öllum stigum mjólkurframleiðslu eru síst lægri í Danmörku en hér á landi. Ekki verður hárri álagningu íslenskra kaupmanna heldur kennt um því álagningin hér er það lág, að sögn kaupmanna, að þeir hafa sáralítið svigrúm til verðsamkeppni nema að fara að greiða með hverjum seldum mjólkurlítra. Þetta á sjálfsagt sinn þátt í því að verð á helstu neysluvörum hér á landi er það fjórða hæsta í þeim 30 Evrópuríkjum sem norska hagstofan kannaði og birt var í morgun. Þar eru Frakkland, Holland og Bretland í meðallagi, sem miðast við 100. Verðið er hins vegar hæst í Noregi og Sviss, 139, næst í Danmörku, 133, og Ísland er í fjórða sæti með 128. Rúmenskar nauðsynjavörur eru langódýrastar og hafa stuðulinn 33. Nauðsynjavörur á Íslandi eru því um það bil fjórum sinnum dýrari en þar en rétt er að taka fram að laun á Íslandi eru mun hærri en þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×