Innlent

Ráðuneyti og Alcoa áfrýja bæði

Umhverfisráðuneytið og Alcoa á Íslandi hafa ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms vegna álversins í Reyðarfirði til Hæstaréttar. Ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis telur dóminn rangan. Tómas Sigurðsson, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi, segir að farið verði ítarlega yfir þá niðurstöðu héraðsdóms að álver Alcoa verði að fara í umhverfismat og að fyrirtækið ráðfæri sig við stjórnvöld um framhaldið. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, segir að niðurstaða héraðsdóms komi á óvart. Umhverfisráðuneytið sé ósátt við niðurstöðuna og telji hana ranga og í samráði við ríkislögmann hafi verið ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Aðspurður hvað í niðurstöðunni hann telji rangt segir Magnús að Skipulagstofnun hafi á sínum tíma skoðað málið og hún hafi úrskurðað með því að bera saman það umhverfismat sem hafi legið fyrir fyrir 400 þúsund tonna álver og nýja álverið sem sé 320 þúsund tonn. Stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að áhrif breytingarinnar væru ekki svo mikil að það kallaði á nýtt umhverfismat. Þetta mat stofnunarinnar hafi verið byggt á sérfræðiáliti bestu stofnana samfélagsins. Magnús segist aðspurður ekki sjá að niðurstaðan hafi áhrif á framkvæmdir fyrir austan á þessu stigi málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×