Innlent

Verð á mjólkurkvóta rýkur upp

Verð á mjólkurkvóta er rokið upp úr öllu valdi og íhuga ýmsir bændur að bregða búi og selja kvótann, en aðrir neyðast til þess. Lítri af varanlegum mjólkurkvóta kostaði 210 krónur í janúar í fyrra en er nú kominn upp í 355 krónur og hefur lítrinn því  hækkað um 145 krónur, sem er langt umfram allar hækkanir í landinu. Að mati fróðra manna í atvinnugreininni er nú endanlega brennt fyrir að ungt fólk geti hafið kúabúskap með viðeigandi kvótakaupum. Þá íhuga nú ýmsir rótgrónir kúabændur að grípa tækifærið, bregða búi og selja kvótann en ungir bændur, sem eru að byggja upp og hafa byggt sínar rekstraráætlanir á að lítrinn kosti 200 til 220 krónur, neyðast nú til að gefast upp. Þeir geta ekki lengur aukið við kvótann til að standa undir skuldbindingum. Þá telja menn engar líkur á að verð lækki á ný því bankar eiga víða óbeint veð í kvótum og mjólkurstöðvar vilja kaupa allt sem losnar á svæðum þeirra til að halda óbreyttri framleiðslu eða auka hana jafnvel. Þá eru eignarhaldsfélög einnig að hasla sér völl í mjólkurframleiðslunni með uppkaupum á jörðum og kvótum og geta grundvallað reksturinn öðruvísi en venjulegur bóndi. Heimildarmenn telja að mikið rót sé fram undan á þessu sviði á næstu vikum og mánuðum því nú sé líka farið að blasa við að bankar, sem veðja á einn skuldunaut fremur en annan, færi kvótann til þeirra vænlegustu til að tryggja hagsmuni sína, en bankarnir eiga stöðugt meiri hagsmuna að gæta í landbúnaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×