Innlent

Gatnamótin færast til norðurs

Gatnamót Suðurlandsvegar og Þrengslavegar færast til um 1,5 kílómetra til norðurs þegar byggð verða ný mislæg gatnamót. Þá verður lagður nýr vegkafli í tengslum við breytinguna sem verður um þriggja kílómetra langur. "Suðurlandsvegurinn færist talsvert til við þetta," segir Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi. Hann segir til standa að opna útboð vegna gatnamótanna og vegarins 1. febrúar næstkomandi, en verklok eigi svo að vera í október á þessu ári. Í útboðsgögnum er hins vegar fyrirvari vegna þess að ekki liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar á því hvort mislægu gatnamótin séu matsskyld, en verði sú raunin geta framkvæmdir tafist um marga mánuði. "Við eigum nú síður von á því að þetta þurfi að fara í umhverfismat, því við vorum búin að fá svar varðandi veginn sjálfan að þess þyrfti ekki, þannig að nú snýr fyrirspurnin bara að mislægu gatnamótunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×