Innlent

Dropinn að verða æ dýrari

Síðustu fimm mánuði hefur meðalverð á mjólkurlítra í kvótaviðskiptum bænda hækkað um rúm 17 prósent. Fyrsta janúar síðastliðinn var meðalverð á lítra 308 krónur, en var í byrjun september 263 krónur. Verð í einstökum kaupum á kvóta getur þó verið töluvert hærra en meðalverðið segir til um. Í nóvember þótti kvótaverð hafa náð nýjum hæðum þegar greiddar voru 360 krónur fyrir kvóta, en í síðasta mánuði heyrðust þó enn hærri tölur, eða allt upp í 400 krónur á lítrann. "Ég er nú ekki farinn að sjá svoleiðis tölur á neinum pappírum," sagði Erna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, en hún heldur utan um birtingu meðalverðs á greiðslumarki mjólkur á vef samtakanna. Hún bendir á að ákveðinn fyrirvara verði að setja við tölurnar því mismunandi geti verið til hvaða tímabils greiðslumarkið nái og hvort það sé fullnýtt eða ekki. Þannig gerir hún síður ráð fyrir að verð haldi áfram að hækka nú þegar líður á vorið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×