Innlent

Skattskyldan er tvímælalaus

Enginn vafi leikur á því að portúgalskir leigustarfsmenn Impregilo eigi að borga skatta á Íslandi. Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri segir að almennar reglur skattalaganna gildi og engin tvímæli séu um það. "Takmörkuð skattskylda gildir fyrir alla aðra en þá sem eru búsettir hér á landi meirihluta ársins. Allir sem dvelja hér á landi og hljóta laun fyrir störf sín skulu greiða tekjuskatt, þar með taldir leigustarfsmenn sem eru hér í stuttan tíma," segir Indriði. "Þetta ákvæði laganna er býsna afdráttarlaust og maður skilur ekki hvernig nokkrum manni dettur í hug að halda að maður sem þiggur laun fyrir störf sem unnin eru hér á landi sé ekki skattskyldur," segir hann. Tvísköttunarsamningar við Portúgala koma ekki til framkvæmda fyrr en frá og með árinu í ár. Indriði segir að þeir hafi engin áhrif á skattskyldu leigustarfsmannanna nema í undantekningartilvikum, þ.e. ef þeir vinna hér dag og dag. Sú regla gildi ekki um portúgölsku starfsmennina. Skattayfirvöld hafa áætlað skatt á Impregilo og segir Ómar R. Valdimarsson, talsmaður fyrirtækisins, rangt að fyrirtækið skuldi skatta upp á hundruð milljóna. Hann segir að fyrirtækið hafi gert upp skuldir við skattyfirvöld að fjárhæð 130 milljónir króna. Greiðslan hafi átt sér stað í gegnum portúgölsku starfsmannaleigurnar Nett, sem hafi greitt 70 milljónir, og Select, sem hafi greitt 60 milljónir til skattyfirvalda. Þær hafi síðan rukkað Impregilo um þessar upphæðir. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Impregilo hafi aðeins greitt skatt fyrir hluta starfsmannanna. Impregilo er ósammála því að portúgalskir starfsmenn eigi að greiða skatt hér á landi og telur sig eiga endurkröfurétt á hendur skattyfirvöldum. Málinu hefur verið áfrýjað til Yfirskattanefndar og er von á úrskurði nefndarinnar síðar í þessum mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×