Innlent

Alþjóðlegur stuðningur í glímunni

Fulltrúar ítölsku verkalýðsfélaganna og Alþjóða byggingasambandsins koma til Íslands í næstu viku til að styðja íslenska verkalýðshreyfingu og kynna sér aðstæður og aðbúnað starfsmanna á Kárahnjúkum. Alþjóðlega sendinefndin fer beint að Kárahnjúkum og sest svo á fund með fulltrúum íslensku verkalýðshreyfingarinnar á föstudag. Tilgangur fundarins er að fá "siðferðilegan stuðning, afla skilnings Ítalanna á því hvað er í gangi á Kárahnjúkum og hugsanlega reyna að ná alþjóðlegu samkomulagi við Impregilo því að Impregilo starfar ekki bara hér á landi. Þetta er alþjóðlegt fyrirtæki," segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Rafiðnaðarsambandið, Samiðn og Starfsgreinasambandið eru félagar í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu byggingasamböndunum. Í þessum samböndum eru líka systurfélög þessara sambanda á Ítalíu. Guðmundur er í stjórn evrópska sambandsins og formaður Samiðnar er í stjórn norræna sambandsins og hafa þeir unnið að þessum fundi. "Í gegnum þessi sambönd hefur starfsfólk sambandanna í Sviss verið beðið um að ræða við ítölsku systurfélögin og kanna hvort hægt væri að komast í færi við Impregilo á heimavelli og ná samningi við það. Þá er verið að velta fyrir sér samstarfssamningi á alþjóðlegum grundvelli. Við erum með svoleiðis samninga, t.d. við Ikea og Skanska og ýmis stærri fyrirtæki sem eru með alþjóðlega starfsemi. Við viljum kanna hvort hægt sé að fá Impregilo til að ræða við okkur á þessum nótum." Guðmundur segir að talsmenn Impregilo hafi "látið líklega niðri á Ítalíu en við ætlum að fá fulltrúa verkalýðsfélaganna hingað til að sjá með eigin augum hvað við erum að tala um." Glíman við Impregilo hafi verið heilmikil, aðeins toppurinn á ísjakanum hafi birst í fjölmiðlum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×