Innlent

Skert læknisþjónusta í Eyjum

Vegna fjárhagsþrenginga Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja hefur framkvæmdastjóri ákveðið að skerða læknisþjónustu stofnunarinnar við bæjarbúa að ýmsu leyti á þessu ári. Þetta kemur fram í umsögn frá læknaráði heilbrigðisstofnunarinnar sem send hefur verið til framkvæmdastjóra, bæjarstjórnar Vestmannaeyja, landlæknis og heilbrigðisráðherra og Eyjar.net greinir frá. Tvö mál vega þyngst í málinu: Annars vegar hefur verið ákveðið að fella niður bakvakt heilsugæslulækna, svokallaða G-II vakt, frá og með áramótum. Bakvakt þessi hefur verið öryggisventill og tryggt að ávallt séu til staðar fleiri en einn heilsugæslulæknir á eyjunni. Læknir á G-II bakvakt hefur verið hægt að kalla inn þegar vakthafandi heilsugæslulæknir hefur þurft að fara í sjúkraflug, verið upptekinn á skurðstofu eða þurft að sinna öðrum brýnum erindum. Í öðru lagi hefur framkvæmdastjóri ákveðið að loka fyrir skurðstofu og skurðlæknisþjónustu stofnunarinnar í a.m.k. sex vikur næsta sumar. Allt starfsfólk skurðstofu, þar með talið skurðlæknir og svæfingalæknir, verður sent í frí á þessum tíma og ekki ráðið í neinar afleysingastöður. Því kemur skurðlæknis- og svæfingalæknisþjónusta til með að leggjast alveg af stóran hluta næsta sumars. Þetta hefur ekki gerst áður í seinni tíð. Samkvæmt Eyjar.net eru afleiðingar af þessu margar, m.a. þær að mun fleiri sjúklinga með bráðasjúkdóma ýmis konar þarf að senda með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Ef stærri slys eða hópslys verða þá eru einungis tveir læknar á vakt, vakthafandi heilsugæslulæknir og lyflæknir, og jafnvel ekki fleiri til staðar á eyjunni. Þetta þýðir einnig að allar fæðandi konur þarf að senda til Reykjavíkur og ef um áhættufæðingar er að ræða þurfa viðkomandi konur í sumum tilfellum að dvelja í Reykjavík í margar vikur. Þrátt fyrir þetta getur komið upp sú staða að konur fari óvænt í fæðingu fyrir tímann og þurfi á bráðakeisaraskurði að halda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×