Innlent

Sigríði sagt upp störfum

Sigríði Árnadóttur, fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar, var sagt upp störfum í gær eftir tæplega eitt ár í starfi. Sigríður segist hafa verið kölluð á fund Páls Magnússonar sjónvarpsstjóra síðdegis í gær þar sem henni var sagt upp án nokkurs formála. Hún segist ekki hafa fengið veigamiklar ástæður fyrir uppsögninni og hún hafi ekki orðið vör við óánægju Páls með hennar störf fyrir nokkru þegar hann vakti athygli hennar á að áhorf á fréttir stöðvarinnar hefði aukist úr sautján prósentum í október árið 2003 í 36 prósent í október í fyrra. "Ég vona að samstarfsfólk mitt á fréttastofunni njóti góðs af því og ég óska því kraftmikla fólki alls hins besta." Sigríður segir það hafa verið fyrirséð að breytingar yrðu á rekstri fyrirtækisins eftir að Sigurði G. Guðjónssyni var sagt upp störfum en hann réð Sigríði til starfa í febrúar á liðnu ári. "Þá gat ég látið mér detta í hug að breytingar yrðu á mínum högum en ég var samt fullvissuð um að það stæði ekki til." Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri Íslenska útvarpsfélagsins, vísaði á Pál Magnússon, sjónvarpsstjóra Stöðvar 2 vegna málsins. Ekki náðist í Pál í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×