Innlent

Tólf tíma málflutningur í olíumáli

Málflutningur olíufélaganna fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála vegna úrskurðar samkeppnisráðs um verðsamráðssektir stóð frá klukkan níu í gærmorgun til níu í gærkvöldi. Olíufélögin áfrýjuðu úrskurði ráðsins frá því í lok október um verðsamráð þeirra frá árinu 1993 þar til Samkeppnisstofnun gerði húsleit hjá félögunum í desember árið 2001. Samkvæmt úrskurðinum voru félögin sektuð um samtals tvo milljarða króna. Olíufélögin vildu ekki una úrskurðinum og fara fram á sýknu. Stefán Már Stefánsson, formaður áfrýjunarnefndarinnar, segir að málið verði nú tekið til úrskurðar og stefnt sé að því að ljúka því í þessum mánuði. Stutt er í að sex vikna frestur sem nefndin hafði til að ljúka málinu renni út. Stefán segir mikinn ágreining hafa verið milli olíufélaganna og Samkeppnisstofnunar við málflutninginn. Ágreiningsatriðin séu mörg hundruð. Málflutningurinn fór þannig fram að lögfræðingar olíufélaganna töluðu í tvo tíma hver og fulltrúar Samkeppnisstofnunar hafi síðan flutt andsvör í tvo og hálfan tíma. Síðan fór fram önnur styttri umferð þar sem allir tóku til máls að nýju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×