Innlent

Loftskip á milli lands og Eyja?

Sky-Cat risaloftskip sem Bretar eru að ljúka við að hanna yrði aðeins 45 mínútur á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Slíkt loftskip virðist betri lausn á samgöngumálum Vestmannaeyinga en Herjólfur eða aðrar hefðbundnar ferjur.  Þetta er niðurstaða úr athugunum sex nemenda við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem skoðað hafa málið í vetur. Loftskipið tekur 42 bíla og 420 farþega í ferð og yrði aðeins 45 mínútur á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja en mun skemmri tíma til Þorlákshafnar, og hvað þá á Bakkaflugvöll. Skipið, sem sækir lyftikraft sinn í ílangan helíumfylltan belg, er knúið áfram með fjórum dísilvélum og getur athafnað sig í öllum veðrum sem þotur geta. Áætlað kaupverð er 6,5 milljarðar króna og hafa nemendurnir reiknað út að framlegð þess sé meiri en Herjólfs og skili þessi fjárfesting sér því betur, bæði peningalega og tímalega. Í framhaldi af þessu hefur hópurinn einnig áhuga á að kanna notkunarmöguleika loftskipsins til þungaflutninga hér innanlands, auk þess sem það hentar vel til björgunarstarfa vegna náttúruhamfara og til landhelgisgæslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×