Innlent

Mótmæla stöðvun á vítamíndrykk

Forstjóri Ölgerðinnar Egils Skallagrímssonar, Andri Þór Guðmundsson, gagnrýnir að dreifing vítamínbætta drykkjarins Kristals Plús hafi verið stöðvuð. Vinnubrögð Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur séu samkeppnishamlandi mismunun og brot á jafnréttisreglu, þar sem horft sé framhjá vítamínbættum drykkjum erlendra framleiðenda hér á landi sem hafi ekki leyfi. "Við teljum illilega á okkur brotið. Vítamínbættar drykkjarvörur hafa flætt hér yfir markaðinn ár eftir ár og eru óáreittar í verslunum. Við skiljum ekki af hverju eitt er ekki látið yfir alla ganga," segir Andri. Unnið sé á móti hollustumarkmiðum og vöruþróun innlendra aðila. Rögnvaldur Ingólfsson, deildarstjóri matvælaeftirlitssviðs Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, segir ekki keppt að því að gera innlendum framleiðendum erfiðara fyrir. Þar sem frjálst flæði vítamínbættra vara sé innan Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki skoðað hvort þær erlendu uppfylli allar íslenskar reglur áður en þær fari á markað. Rögnvaldur segir þó meginmun á þeim erlendu og drykk Ölgerðinnar því flestir erlendu drykkjanna hafi fengið leyfi sinna stjórnvalda. Drykkur Ölgerðarinnar hafi hins vegar aldrei verið skoðaður. Hann hafi farið á markað án allra leyfa: "Í dreifingarbanninu felist ekki dómur um hvort drykkurinn verði leyfður eða ekki." Andri segir menn Ölgerðarinnar hafa talið 43 vítamínbætta drykki í hillum stórmarkaða í vikunni. Á fundi með Umhverfisstofnun og umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar, þar sem sótt hafi verið um leyfi fyrir Kristal Plús, hafi þær upplýsingar fengist að umhverfis- og tæknisviðið hafi gert athugasemdir við þrjár erlenda vítamínbætta drykki í janúar. Rögnvaldur segir það rétt. Þeir drykkir hafi fengið viðurkenningu erlendra stjórnvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×