Innlent

Línumönnum sagt upp

Eva magnúsdóttir Eva, sem er upplýsingafulltrúi Símans, segir fyrirtækið ætla að fækka störfum um sex á Suðurlandi.
Eva magnúsdóttir Eva, sem er upplýsingafulltrúi Símans, segir fyrirtækið ætla að fækka störfum um sex á Suðurlandi.

Síminn hefur sagt sex starfsmönnum upp á Suðurlandi í hagræðingarskyni. Að sögn Evu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, verður fækkað um tvo starfsmenn á Selfossi, þrjá á Hvolsvelli og einn í Vík í Mýrdal.

"Alls eru þetta sex störf, en einn kemur svo og verður verktaki hjá okkur og svo er ósamið um verktöku á Hvolsvelli," segir hún, en telur að koma verði í ljós hvort þar verði samið við einn eða tvo. "Við höfum verið að endurskipu­leggja starfsemina að undanförnu og þétta hjá okkur starfsstöðvarnar," segir Eva og bætir við að verið sé að semja við starfsmann Símans í Vík í Mýrdal um verktakavinnu.

"Síðan verður lögð niður stöðin okkar á Hvolsvelli. Þjónusta við Suðurland fer því að mestu fram frá Selfossi hér eftir og frá þessum starfsmanni í Vík. Síðan er líklegt að samið verði við einhverja á Hvolsvelli um að vera í verktöku fyrir okkur ef þörf krefur, en það á eftir að koma í ljós." Eva segir ekki von á frekari hagræðingu í bili. "Rekstur Símans, eins og annarra fyrirtækja, er náttúrlega stöðugt í endurskoðun. En fyrir þessu eru margar ástæður. Tæknin er að mörgu leyti orðin miðlægari og því hægt að þjónusta kerfin á annan hátt og kerfin orðin betri. Við teljum okkur geta veitt góða þjónustu frá Selfossi og Reykjavík ef því er að skipta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×