Innlent

2B vill peninga fyrir starfsmenn Ístaks

Ístak leigði fjórtán verkamenn í góðri trú enda verkefnin næg. Þessi mynd er tekin af verkamönnum við framkvæmdirnar á Hellisheiði.
Ístak leigði fjórtán verkamenn í góðri trú enda verkefnin næg. Þessi mynd er tekin af verkamönnum við framkvæmdirnar á Hellisheiði.

"Pólverjarnir fjórtán eru nú komnir á launaskrá hjá Ístaki og eigandi starfsmannaleigunnar 2B hefur gert upp við tvo þeirra. Ég fór yfir þá launaseðla sem voru allt í lagi og hann mun gera upp við hina fyrir þann fimmtánda svo þetta er hið besta mál," segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Verkalýðsfélagið kærði starfsmannaleiguna 2B fyrir skömmu vegna málsins en nú hefur lausn fundist, starfsmennirnir eru komnir með atvinnuleyfi og fá sín laun greidd frá Ístaki að sögn Vilhjálms.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður 2B, segir málið þó ekki svona einfalt. "Með fullri virðingu fyrir Vilhjálmi þá er hann enginn dómari sem getur rift samningum 2B, hvorki við Ístak né starfsmennina," segir Sveinn Andri. Hann segir að 2B fari enn fram á samningsgreiðslur frá Ístaki. Hann undrar sig á því að Vinnumálastofnun afgreiði mál Pólverjanna á ljóshraða meðan venjulega verði skjólstæðingar hans að bíða lengi eftir afgreiðslu fyrir sína starfsmenn. "Ekki er nóg með það heldur er umsóknin gölluð þar sem hún kom frá Ístaki meðan mennirnir starfa hjá 2B," segir hann.

Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks, segir að Pólverjarnir séu orðnir starfsmenn Ístaks og nú sé samið við 2B um samningslok. "Það er ekki verið að greiða tvöfalt fyrir þá," segir hann. "Við leigðum mennina af 2B í góðri trú en þegar Vinnumálastofnun kvað þá ólöglega stóðum við frammi fyrir tveimur kostum: annars vegar að reka þá en okkur þótti þessi kostur sem við svo tókum mun betri," bætir hann við. Þetta er í annað sinn sem Verkalýðsfélag Akraness vindur málum í þennan farveg en í sumar fengu mál fimm Pólverja sem nú starfa hjá Spútnik bátum svipuð endalok.

Enn vinnur verkalýðsfélagið að slíkum málum. "Nú erum við með fyrirtæki undir smásjánni sem fékk atvinnuleyfi fyrir erlenda verkamenn og allt virtist vera í lagi þar til launþegi sýndi okkur launaseðla sem ekki voru í takt við þá samninga sem lágu fyrir," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×