Erlent

Aðildarviðræðum slegið á frest

Allt benti til þess í gær, að Evrópusambandið ákveddi að slá því á frest að hefja aðildarviðræður við Króatíu. Til hafði staðið að viðræðurnar hæfust á morgun, fimmtudag, en vegna óánægju meðal ráðamanna ESB með meintan skort á því að króatísk stjórnvöld sýndu stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna tilhlýðilegan samstarfsvilja leit út fyrir að þeim yrði frestað. Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna 25 taka ákvörðun um málið í dag. Málið snýst aðallega um fyrrverandi hershöfðingja í Króatíuher, Ante Gotovina að nafni, sem sætir ákæru fyrir meinta stríðsglæpi í borgarastríðinu í kjölfar upplausnar Júgóslavíu. Gagnrýnendur telja að króatískum stjórnvöldum væri í lófa lagið að hafa hendur í hári Gotovina og framselja hann, en hershöfðinginn hefur farið huldu höfði frá því ákæran var gefin út í febrúar í fyrra. Þessu neitar Króatíustjórn. Forsætisráðherrann Ivo Sanader staðhæfði í gær að Gotovina væri örugglega ekki lengur í Króatíu og því væri það ógerlegt fyrir króatísk stjórnvöld að koma honum í hendur dómstólsins í Haag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×