Erlent

Móðir jörð í hættu

Ný rannsókn sýnir að stór hluti náttúrunnar hefur orðið fyrir verulegum ágangi af völdum mannfólksins. Grípa þarf strax inn í ef ekki á að fara illa. Rannsóknin er sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á ástandi jarðarinnar. 1.360 vísindamenn frá 95 löndum unnu að henni í fjögur ár og var afraksturinn kynntur í gær. Niðurstöður hennar eru að fólksfjölgun og efnahagsumsvif síðustu áratuga hafi verið á kostnað náttúrunnar. Þetta getur haft þær afleiðingar að barátta gegn fátækt og farsóttum verði fyrir bí. Skýrsluhöfundar segja að sextíu prósent graslendis, skóga, fljóta og stöðuvatna hafi skaðast verulega og verði ekkert að gert geti vatnsból, fiskimið og skógar eyðilagst með öllu á næstu áratugum. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði að skýrslan væri áminning um hvernig við gætum breytt um stefnu en samtökin hafa stutt við gerð hennar. Á meðal úrræða sem bent er á í rannsókninni er afnám viðskiptahindrana og niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum, aukin verndun skóglendis og strandsvæða og enn frekari takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×